Sport

Mótar liðið ekki strax

Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Notts County, segir í viðtali á heimasíðu félagsins í gær að hann sé búinn að ákveða dagsetningu til að velja þá leikmenn sem hann ætli að nota á næsta tímabili og segir hana vera daginn fyrir fyrsta leik. Guðjón hefur lítið getað fylgst með leikmönnum liðsins nema á myndbandsupptökum, því hann kom ekki til liðsins fyrr en leiktíðinni lauk nú í vor. Hann segist í viðtalinu lítið geta metið frammistöðu leikmanna eftir upptökunum, því hann sé ekki með á hreinu hvaða taktísku skipanir þeir voru með undir þjálfara sínum á þeim tíma. „Ég verð sjálfur að skoða þessa leikmenn á undirbúningstímabilinu og þar fæ ég væntanlega að sjá hvernig hver og einn bregst við ólíkum aðstæðum í leik og þannig get ég tekið ákvörðun um framhaldið sjálfur,“ sagði Guðjón. „Ég get horft á leikmann spila á myndbandi, en það segir mér fátt fyrr en ég fæ að sjá til hans á undirbúningstímabilinu og því verður það okkur gríðarlega mikilvægt,“ sagði Guðjón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×