Sport

Fjöldi Íslendinga í Andorra

Á mánudagskvöldið verða smáþjóðaleikarnir settir í Andorra þar sem keppnin fer fram í ár. 126 íslenskir keppendur halda utan í dag ásamt fylgdarliði. Íslenska keppnisliðið á harma að hefna, eftir að hafa hlotið flest verðlaun á leikunum nokkur skipti í röð, urðu þeir að láta í minni pokann fyrir tveimur árum á Möltu, er leikarnir fóru síðast fram. Sigríður Jónsdóttir, varaforseti ÍSÍ, er fararstjóri íslenska hópsins og segir hún undirbúninginn hafa gengið vel. „Við vorum með undirbúningsfund á þriðjudaginn þar sem meira en 100 keppendur, farar- og flokkstjórar mættu. Þar voru aðstæður kynntar og það sem bíður okkar ytra. Það var einstaklega góð stemmning í hópnum og hefur undirbúningur keppenda gengið vel," segir Sigríður. Að sögn hennar senda tíu sérsambönd 126 þátttakendur til leiks í 12 íþróttagreinum. Meðal keppenda eru til að mynda keppnislið í strandblaki karla sem verður að teljast fremur ný íþrótt hér á landi. „Þetta er íþrótt sem hefur notið sífellt meiri vinsælda. Það sýndi sig til dæmis á síðustu ólympíuleikum hversu vinsæl sjónvarpsíþrótt þessi grein er." Íslenski hópurinn flýgur í dag til Barcelona þar sem rútur munu flytja mannskapinn til fjallríkisins Andorra og tekur það ferðalag um þrjár klukkustundir. Hópurinn nýtir sér mánudaginn til að koma sér fyrir og kynna sér aðstæður áður en setningarathöfnin hefst um kvöldið. Keppni hefst á þriðjudagsmorguninn og stendur yfir til laugardagsins þegar mótinu verður slitið. „Að sjálfsögðu setjum við stefnuna á að vinna til flestra verðlauna. Við vitum þó að það eru nokkrir sterkir keppendur sem ekki verða með, Örn Arnarson á við meiðsli að stríða og okkar bestu hlaupadrottningar eru að keppa á alþjóðlegum mótum annars staðar," sagði Sigríður. Íslensku körfuboltalandsliðin ætla sér einnig stóra hluti og setja stefnuna á sigur bæði í karla- og kvennaflokki. Hannes Jónsson er fararstjóri körfuboltahópsins.„Undirbúningurinn hefur gengið vel. Landsliðið kom saman fyrir þremur vikum en kvennalandsliðið hefur verið viku lengur saman," sagði Hannes. Ekki eru allir okkar körfuboltamenn í landsliði karla og segir Hannes það miður. „Já, það er auðvitað leiðinlegt. En engu að síður ætlum við okkur stóra hluti." Landslið kvenna hefur leik strax á þriðjudag og lýkur keppni tveimur dögum síðar en karlarnir byrja á miðvikudag og keppa alveg fram á lokadag mótsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×