Sport

Vonar að hann slái ekki metið

"Já, eitt mark og metið er þá bara fallið," sagði Ingi Björn Albertsson hlæjandi við blaðamann Fréttablaðsins sem innti hann viðbragða vegna ummæla Alberts Brynjars, sonar hans, í DV í gær. Eftir að hafa skorað sigurmark Fylkis gegn Þrótti opnaði Albert markareikning sinn á Íslandsmótinu en karl faðir hans er markahæsti leikmaður mótsins frá upphafi, með 126 mörk. "Ég ætla að slá metið hans pabba," sagði hann án þess að blikna. Semsagt, eitt mark komið og 125 eftir. "Ég á nú þá ósk heitasta að hann felli ekki metið," sagði Ingi Björn. "En það er nú vegna þess að ég vil að hann fái að spila eitthvað erlendis. Það er nú ekki út af neinu öðru. Mér líst afskaplega vel á strákinn og vona að hann eigi framtíðina fyrir sér í boltanum og að hún sé þá annars staðar en hér heima." Markagenið er þó greinilega til staðar í Alberti Brynjari. "Hann er búinn að vera markakóngur allt sitt líf og er sennilega markahæstur leikmaður Fylkis í sögu félagsins. Hann hefur alltaf búið yfir þeim hæfileikum að geta skorað mörk og nú er að sjá hvort þeir hæfileikar verði viðvarandi og nýtist honum í keppni hinna bestu." Albert Brynjar er uppalinn Árbæingur en systkini hans, pabbi og afi (Albert Guðmundsson) voru og eru öll miklir Valsarar. "Hann er alinn upp í Árbænum og er gegnheill Fylkismaður. Enda höfum við aldrei lagt að honum að yfirgefa það félag," sagði Ingi Björn. "Og ég mun mæta á alla Fylkisleiki sem ég kemst á í sumar, það er klárt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×