Viðskipti innlent

Áminntir vegna trúnaðarbrots

Í bréfinu til fjárfesta segir að upplýsingagjöfin geti falið í sér brot á trúnaðarsamningi og nefndin kunni að telja hana verulega vanefnd. Vísað er í ákvæði um að ekki megi láta neinum aðila í té upplýsingar varðandi hugsanlega sölu Símans án skriflegs samþykkis einkavæðingarnefndar. „Ástæða er til að árétta það að hvers konar brot á trúnaðarsamningum mun verða litið mjög alvarlegum augum og getur leitt til þess að hugsanlegir fjárfestar verði útilokaðir frá þátttöku í söluferlinu án frekari fyrirvara,“ segir í bréfinu. Er þetta í samræmi við frétt Fréttablaðsins í gær um að lögmenn einkavæðingarnefndar telji að fréttatilkynning hóps fjárfesta, sem samanstendur af Burðarási, KEA, Ólafi Jóhanni Ólafssyni, Talsímafélaginu og Tryggingamiðstöðinni með aðild Almennings, hafi ekki verið í samræmi við áðurnefnd trúnaðarákvæði. Það var staðfest af forystumanni í hópnum. Agnes Bragadóttir, forsvarsmaður Almennings, sagði í hádegisfréttum Útvarps í gær að félagið hefði engar athugasemdir fengið. Allt sem Almenningur hefði gert stæðist fullkomlega alla skilmála Morgan Stanley og einkavæðingarnefndar. Á fréttavef Viðskiptablaðsins er haft eftir Jóni Sveinssyni, formanni einkavæðingarnefndar, að yfirlýsing Almennings og fjárfestahópsins í fjölmiðlum feli í sér brot á trúnaðarsamningi við nefndina. Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag segir hann það mjög alvarlegt mál þegar menn virði ekki slíkan samning, sem sé í rauninni grundvöllurinn að öllu ferlinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×