Viðskipti innlent

Hlutabréf lækka í Kauphöllinni

Hlutabréfaverð hélt áfram að lækka í Kauphöll Íslands í gær. Framan af degi lækkuðu bréf í KB banka verulega en hækkuðu á ný undir lok dags og nam lækkunin á þeim bréfum í gær tæpum tveimur prósentum. Í heildina lækkaði Úrvalsvísitalan um 1,24 prósent en þetta er sjöundi dagurinn í röð sem Úrvalsvísitalan lækkar. Vísitalan fór niður fyrir fjögur þúsund stigin í gær í fyrsta sinn í rúmlega tvær vikur. Alls hefur Úrvalsvísitalan lækkað um tæp fjögur prósent í þeirri lækkunarhrinu sem nú er í gangi. Úrvalsvísitalan er nú á svipuðum slóðum og hún var í byrjun október áður en lækkunarhrina gekk í garð. Þá fór Úrvalsvísitalan úr 3.947 stigum í byrjun október niður í 3.216 stig í byrjun nóvember. Hlutabréfaverð tók svo við sér á ný í desember og hafa þeir sem keyptu bréf í niðursveiflunni fengið mjög góða ávöxtun síðan þá. Mest hefur Bakkavör lækkað í síðustu viku, um 4,9 prósent, en Íslandsbanki hefur lækkað um 4,3 prósent. Aðeins tvö félög í Úrvalsvísitölunni hafa hækkað á síðustu fimm dögum; Actavis um eitt prósent og Kögun um 0,16 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×