Sport

Vilja mömmurnar hjá sér

Fjöldi brasilískra knattspyrnumanna sem leika í þýsku Bundesligunni hefur þungar áhyggjur af mæðrum sínum heima fyrir af ótta við að þeim verði rænt. Sumir hafa sent eftir mæðrum sínum og vilja hafa þær öruggar hjá sér í Þýskalandi. Fimmtu brasilísku fótboltamömmunni á hálfu ári var rænt í vikunni og skjálfa brasilískir fótboltamenn á beinunum af ótta um mæður sínar vegna ástandsins sem hríðversnar í heimalandi þeirra. Miðjumaðurinn Marcelinho og Gilberto, báðir hjá Hertha Berlin og Cacau hjá Stuttgart eru allir að reyna að fá landvistarleyfi fyrir mæður sínar í Þýskalandi. "Óttinn við mannrán vex með hverjum degi. Mamma er hrædd og spyr hvort hún geti komið hingað til Þýskalands" er haft eftir Stuttgart leikmanninum. Frægt var ránið á móður brasilíska landsliðsmannsins Robinho í desember sl. en vopnaðir menn námu hana á brott og skiluðu henni ekki fyrr en 41 degi síðar þegar greitt hafði veirð lausnargjald upp á 40.000 evrur. (um 3 og hálf milljón íslenskra króna.) Mannræningjar hugsa sér gjarnan gott til glóðarinnar þegar brasilískur leikmaður gerir það gott en meðal stórliða sem eru á eftir Robinho eru Real Madrid og Chelsea og því miklir peningar líklegir til staðar í kringum slíka leikmenn. Mikil fátækt er í Brasilíu og er ástandið sérstaklega slæmt á Paraiba svæðinu þar sem móðir Marcelinho, leikmanns Herthu Berlin býr nú. Brasilíska lögreglan leitar enn að móður Luis Fabiano sem er sóknarmaður hjá Evrópumeisturum Porto en henn var rænt í mars.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×