Sport

Fann mig ágætlega

Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KA, er nýkominn heim eftir vikudvöl hjá Man.City. Þorvaldur Örlygsson kom því í kring að Pálmi yrði við æfingar hjá félaginu í eina viku en framkvæmdarstjóri Man.City er engin annar en Stuart Pearce. Fréttablaðið hafði samband við Pálma og spurði hann út í dvölina. „Ég fann mig ágætlega þarna úti og æfði með aðalliðinu allan tímann, vonandi segir það eitthvað," sagði Pálmi sem sagðist ekki hafa átt í vandræðum með hraðann sem fylgir enskri knattspyrnu. „Hraðinn var vissulega meiri en hérna heima en hraðinn í þennan tíma sem ég var þarna gaf kannski ekki rétta mynd af hraðanum sem er í Úrvalsdeildinni þar sem deildin er að klárast hérna úti". Aðspurður sagðist honum lítast mjög vel á Stuart Pearce. „ Mér líkaði mjög vel við Stuart (Pearce) og hann er algjör toppkall. Það var mjög auðvelt að eiga við hann og hann virkaði mjög yfirvegaður," sagði Pálmi. Pálmi sem hefur leikið með KA undanfarin tvö ár segist hóflega bjartsýnn á vera boðinn samningur hjá félaginu. „Auðvitað geri ég mér ákveðnar vonir um að fá samning en ef það gerist ekki þá heldur maður bara áfram. Mestu máli skiptir að Stuart (Pearce) sjái mig í leik en ekki bara á einhverjum æfingum en ég vonast til að hann kíki til Íslands í sumar og sjái mig í einum leik". Það skyldi þó aldrei fara svo að við myndum eignast enn einn atvinnumanninn í knattspyrnu en tíminn verður að leiða það í ljós en það er ljóst að Pálmi á eftir að láta að sér kveða á næstu árum, hvort sem það er hér heima eða erlendis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×