Innlent

Heimsmet í notkun barnageðlyfs

Notkun geðlyfja við athyglisbresti og ofvirkni barna og unglinga hefur aukist um 76 prósent frá árinu 2002 og enn meira frá árinu 1999. Kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna þessarar tegundar lyfja hefur á sama tíma fimm- til sexfaldast. Hann nam um 23 milljónum króna árið 2002 en nærri 130 milljónum króna í fyrra. Þetta kemur fram í svari Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur, Samfylkingunni, en hún spyr hvort eðlilegt geti talist að á annað þúsund barna taki slík lyf að staðaldri. Horft er til virka efnisins methylphenidat, sem þekktara er undir heitinu Ritalin. Ávanahætta fyrir börn er ekki talin mikil, en engu að síður er ráðið frá því að ávísa lyfinu til fíkla. Samkvæmt gögnum Eftirlitsstofnunar Sameinuðu þjóðanna var notkun lyfsins hvergi meiri en á Íslandi árið 2003. Næstmest var notkunin í Bandaríkjunum en þar í landi hafa áhyggjur af hugsanlegri ofgreiningu á athyglisbresti vaknað. Í svari heilbrigðisráðherra segir jafnframt að ofvirkni og athyglisbrestur sé greindur út frá hegðun barnanna og það séu fyrst og fremst barnalæknar með sérfræðiréttindi sem hefji lyfjameðferð. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra tekur undir áhyggjur fyrirspyrjanda og ætlar að leita til landlæknis og Miðstöðvar heilsuverndar barna um það hvernig bregðast skuli við. Sigurður Guðmundsson landlæknir segir að að minnsta kosti tvö prósent barna séu greind með athyglisbrest og ofvirkni og bendir á að sé rétt að málum staðið geti lyfjameðferð gert gagn í allt að þremur tilvikum af fjórum. "Það er hins vegar einnig rétt að greining þessa sjúkdóms er háður frásögnum og það getur stundum orðið til þess að börnin eru meðhöndluð þegar rót vandans er hugsanlega hjá foreldrunum." Sigurður segir vísbendingar um að ekki sé um frekari aukningu að ræða í notkun geðlyfsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×