Innlent

Lausn án sýklalyfja

Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum lækna á Landspítala-háskólasjúkrahúsi að náttúruefni virka vel við bráðri eyrnabólgu og hefur uppgötvunin vakið athygli erlendis. Er þetta í fyrsta sinn sem sýnt er fram á að útvortis meðferð hafi sannarlega áhrif en hugmyndin að rannsókninni vaknaði eftir að Guðrún Sæmundsdóttir, móðir barna sem ítrekað fengu eyrnabólgu, hélt því fram að henni hefði tekist að lækna börn sín með kjarnaolíu. Frekari rannsóknir Karls G. Karlssonar, yfirmanns sýklafræðideildar LSH staðfestu niðurstöðu Guðrúnar. Þessi uppgötvun býður upp á meðferð án sýklalyfja en notkun slíkra lyfja hérlendis er mun meiri en gerist erlendis. Slíkt hefur leitt til lyfjaónæmis hjá fjölmörgum einstaklingum en eyrnabólgur er algengasti heilsuvandi ungra barna. Meðan margir hafa reynt náttúrulyf við ýmsum kvillum reyndist lausnin hjá Guðrúni felast í að notast eingöngu við gufurnar frá kjarnaolíunni í stað þess að bera hana beint á eins og algengt er. Nýjasta útgáfa fagtímaritsins Journal of Infectious Disease fjallar um niðurstöður læknanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×