Innlent

Ánægð með yfirlýsinguna

Brynhildur Flóvenz, stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofunnar, er ánægð með yfirlýsingu formanns og framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins frá því í gær um að forysta Starfsgreinasambandsins muni beita sér fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að tryggja rekstrarafkomu skrifstofunnar. "Ég er afskaplega ánægð að heyra þetta, sérstaklega af því að þetta er verkalýðshreyfingin. Mér hlýnaði um hjartarætur," segir Brynhildur. Mannréttindaskrifstofan þarf um 8 milljónir króna til að loka rekstrargatinu í ár en samtals þarf hún um 12 milljónir í reksturinn á ári. Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að mannréttindi og hugsjónir verkalýðshreyfingarinnar fari saman. Á fundi Starfsgreinasambandsins 10. maí verði rætt um með hvaða hætti verkalýðshreyfingin geti stutt við skrifstofuna. "Í fyrsta lagi getur hún beitt sér fyrir því að ríkisstjórnin sjái að sér og auki fjárframlög til skrifstofunnar á ný. Einnig kemur til greina fjárstuðningur. Hefð er fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að beita fjárstuðningi í mikilvægum málaflokkum, t.d. þegar SÁÁ var sett á laggirnar á sínum tíma," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×