Viðskipti innlent

Verðmæt stofnfjárbréf í SPH

 Hallarbyltingin í Sparisjóði Hafnarfjarðar (SPH) í síðustu viku tók á sig skýrari mynd á mánudaginn þegar tilkynnt var um að Magnús Ægir Magnússon, reyndur innanbúðarmaður, tæki við sparisjóðsstjórastöðunni af Birni Inga Sveinssyni sem hafði verið við stjórnvölinn í tæpa fjóra mánuði. Nýja stjórnin hefur boðað breytingar í rekstri sjóðsins og ætlar að stækka sjóðinn. Eru þessi stjóraskipti einn liður í þeim áætlunum. Aðeins 47 stofnfjáreigendur eru í SPH og hefur því verið hægara sagt en gert að komast inn í hópinn. Útvöldum Hafnfirðingum hefur verið boðið að gerast eigendur stofnfjár og litlar breytingar verða á hópnum. Uppfært stofnfé sjóðsins var um 15,4 milljónir í byrjun árs en eigið fé SPH var á sama tíma yfir þrír milljarðar króna. Gríðarleg verðmæti liggja því í þessum stofnfjárbréfum þar sem stofnfjáreigendur hafa öll yfirráð yfir SPH í hendi sér. Stofnfjárbréf í SPRON, sem gengið hafa kaupum og sölum á stofnfjármarkaði SPRON, hafa verið metin á 70 prósent af eigin fé sjóðsins. Meðaleign hvers stofnfjáreiganda í SPH er 330.000 krónur en það er ekkert óeðlilegt að meta þann hlut á um 45 milljónir króna og allt stofnféð á 2,1 milljarð. Það þýðir að stofnfjáreigandi í SPH sem lagði eina krónu til kaupa á stofnfjárbréfum fær 140 krónur í staðinn. Þegar þetta er haft í huga er stefna nýrrar stjórnar SPH, sem sér tækifæri í útrás og bættri rekstrarafkomu, vel skiljanleg. Bættur rekstur SPH getur skilað stofnfjáreigendum gríðarlegum ávinningi. Eigið fé sjóðsins hækkar en jafnframt er hægt að hækka stofnféð, annars vegar í formi arðgreiðslna og hins vegar með útgáfu nýs stofnfjár á genginu 1. Reksturinn hefur valdið vonbrigðum undanfarin ár þó að sjóðurinn hafi skilað hagnaði svo lengi sem elstu menn muna. Stærsta vandamál sjóðsins hefur verið gríðarlegt útlánatap og slök afkoma af hefðbundinni bankastarfsemi. Ný stjórn sér því tækifæri í því að bæta rekstur SPH með því að vinna betur í hinum hefðbundna bankarekstri, draga úr rekstrarkostnaði og vanda til verka í útlánamálum.  





Fleiri fréttir

Sjá meira


×