Sport

Guðjón á kunnar slóðir

Í kvöld verða háðir fyrstu tveir leikirnir í átta liða úrslitum deildabikarkeppni karla í knattspyrnu. Á KR-velli mætast heimamenn í KR og ÍBV og hefst leikurinn klukkan 19.00. Í síðari leik kvöldsins mætast Þróttur Reykjavík og Valur í Egilshöll, en sá leikur hefst klukkan 20.30. Liðin sem leika í átta liða úrslitunum eru þau lið sem höfnuðu í fjórum efstu sætum hvors riðils í A-deild keppninnar og því taka KR-ingar, sem höfnuðu í efsta sæti í riðli 2, á móti ÍBV sem hafnaði í fjórða sæti í riðli 1. Þróttarar enduðu í öðru sæti á eftir KR í riðli 2 og þeir leika því við lið Vals, sem hafnaði í þriðja sæti í riðli 1. KR er á mikilli siglingu í keppninni og hefur liðið unnið fimm síðustu leiki sína, eftir að hafa gert jafntefli í fyrstu tveimur leikjunum í mótinu. ÍBV hefur líka unnið á; vann tvo af síðustu leikjum sínum og tryggði sér þar með sætið í átta liða úrslitunum. Á fimmtudagskvöld eigast svo við ÍA og Keflavík á Akranesvelli, þar sem Guðjón Þórðarson fer með lærisveina sína í Keflavíkurliðinu á kunnar slóðir, og Breiðablik og FH etja að lokum kappi í Egilshöllinni. Báðir þessir leikir hefjast klukkan 19.00.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×