Sport

Þriðji sigur Alonso í röð

Fernando Alonso hjá Renault og Michael Schumacher hjá Ferrari sönnuðu sig báðir á Imola-brautinni í gær þegar fjórða keppni formúlu tímabilsins fór fram. Alonso stóðst pressuna, fyrst með því að vinna þriðju keppnina í röð en einnig með því að klára fyrstur þrátt fyrir að hafa haft heimsmeistara Michael Schumacher í fantaformi á hælunum síðustu tólf hringina. Schumacher sýndi hinsvegar hversu magnaður hann er enda ekkert sjálfgefið að vinna sig upp á verðlaunapall úr 14. sætinu á ráslínunni hvað þá að enda annar aðeins nokkrum sekúndubrotum á eftir sigurvegaranum. Þjóðverjinn sýndi líka að nýi Ferrari-bílinn er mjög hraðskreiður og jafnframt að hann ætlar sér að keppa um heimsmeistaratitilinn að venju en enginn annar hefur orðið heimsmeistari á þessari öld. Schumacher fimmfaldaði stigafjölda sinn í gær og er kominn upp í þriðja sætið, 26 stigum á eftir Alonso sem hefur fengið tvöfalt fleiri stig en næsti maður sem er Jarno Trulli hjá Toyota.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×