Sport

Ný kynslóð spænskra slátrara

Victor vinur minn er stoltur baski og aðdáandi Athletic Bilbao. Hann verður alltaf jafn sár þegar ég spyr hann hvað sé að frétta af slátraranum frá Bilbao, Andoni Goikoetxea. Bæði finnst honum svekkjandi að harðjaxlinn gamli sé eiginlega eini leikmaðurinn úr sögu Bilbæinga sem við útlendingarnir könnumst við og svo þekkir hann Goikoetxea persónulega og segir kappann séntilmenni sem óverðskuldað hafi fengið þetta blóðuga viðurnefni. En Goikoetxea var óneitanlega tákn síðustu kynslóðar hinna dæmigerðu suður-evrópsku slátrara ásamt Claudio Gentile, heimsmeistara með Ítölum 1982. Reglugerðarbreytingar hafa þrengt mjög að harðjöxlum og slátrarar eru deyjandi stétt. Þó ber svo til um þessar mundir að Spánverjar hafa eignast tvo nýja harðjaxla sem vekja upp minningar um gömlu slátrarana; miðvarðapar Sevilla-liðsins þá Javi Navarro og dr. Pablo Alfaro. Doktor dauði Rétt eins og Goikoetxea er dr. Pablo Alfaro mikið séntilmenni utan vallar, lærður kvensjúkdómalæknir og vinsæll fyrirlesari og viðmælandi í spjallþáttum. Á leikvelli er hann hins vegar grófasti leikmaður síðari ára og enginn núspilandi hefur af jafnmörgum rauðum spjöldum að státa. Alfaro er leikmaður sem jafnvel Madrídarjaxlinum Michel Salgado (sem af samherjanum David Beckham er sagður harðasti maður á plánetunni) þykir ganga lengra en sæmandi er. Á síðasta tímabili vann hann sér til frægðar að stinga fingri upp í endaþarm andstæðings sem svo skemmtilega vill til að ber nafnið Toché, en honum hefur eflaust mislíkað „tötsið", jafnvel þótt þar færi fær læknir alvanur slíkum skoðunum. Toché karlinn fór alveg úr sambandi við þetta en Alfaro, sem ber viðurnefnið „Dr. dauði" komst á forsíður allra helstu blaða. Bæjarpressan í Sevilla snerist gegn honum og hörmuðu að í stað hins fræga „rakara í Sevilla" væri nú frægasti maður borgarinnar þessi nútíma arftaki Goikoetxea, „slátrarinn í Sevilla". Doktorinn lét sér fátt um finnast og notaði tímann til að mennta lærlinginn Javi Navarro, sem á þessari leiktíð hefur farið langt fram úr lærimeistara sínum í fautaskap. Fleiri grófir Í leik gegn Real Mallorca nýverið braut Navarro svo illa á Venesúelamanninum Juan Arango að sá endaði á gjörgæsludeild í tvo sólarhringa með kjálkabrot og heilahristing og sauma þurfti 47 spor í andlit hans. Brotið var kannski ekki það grófasta sem sést hefur en Navarro fór ansi hraustlega í Arango og hefði verðskuldað eitthvað meira en gula spjaldið sem slakur dómari leiksins veifaði. Enda fór pressan á Spáni hamförum og endaði það með því að Navarro var dæmdur í nokkurra leikja bann. Arango hefur jafnað sig að mestu en á eftir að fara í nokkrar heimsóknir til lýtalækna. Sevilla-menn hafa löngum gengist upp í að leika fast og þykir mörgum það miður, ekki síst í ljósi þess að liðið er léttleikandi og hefur náð stórgóðum árangri eins og sést á því að það berst nú um sæti í Meistaradeildinni. Fleiri lið eru svo sem þekkt fyrir að vera býsna föst fyrir, t.d. Valencia, en þar verður þó enginn af hinum grjóthörðu varnarmönnum sakaður um að vera grófur. Ásamt Sevilla-tvíeykinu hafa hins vegar skotið upp kollinum fleiri svartir sauðir nýverið. Pablo Garcia hjá Osasuna þykir allsvakalegur en tölfræðilega er Alberto Lopo hjá Espanyol verstur, með 17 gul spjöld og 4 rauð á síðasta tímabili, en hefur eitthvað róast þessa leiktíðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×