Fastir pennar

Hverjir eiga flokkanna?

Það er fyllsta ástæða til að fagna því að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn ætli að styðja tillögur um að Alþingi endurskoði löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka. Nú þegar komið er á hreint að allir flokkarnir deila því áhugamáli að fest verði í lög tilkynningarskylda um eignarhald á fjölmiðlum, eins og gerð er tillaga um í skýrslu hinnar þverpólitísku fjölmiðlanefndar, getur flokkunum ekki lengur verið stætt á því að gefa ekki upp hverjir eru helstu bakhjarlar þeirra. Það hverjir eiga flokkana getur ekki verið minna mál fyrir lýðræðið en hverjir eiga fjölmiðlana; sjálfsagt sanngirnismál er að hvort tveggja sé á hreinu. Opið bókhald flokkanna hefur verið sérstakt baráttumál Jóhönnu Sigurðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, og stuðningur framsóknarmanna við málið nú kemur fram í kjölfar skýrslu um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og starfsumhverfi stjórnmálaflokka á Íslandi sem lögð var fram á Alþingi á miðvikudag, en skýrslan var unnin að ósk Jóhönnu og fleiri samfylkingarþingmanna. Undanfarinn áratug hefur Jóhanna margsinnis verið í forystu þingmanna sem hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem miðar að því að færa upp á yfirborðið bókhald stjórnmálaflokka og hvernig þeir fjármagna starfsemi sína, ekki síst kosningabaráttu. Það er illskiljanlegt af hverju frumvarpið hefur ekki fengist samþykkt en ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur kosið að veita því ekki brautargengi. Sérstaklega hafa sjálfstæðismenn barist gegn öllum hugmyndum um opnun bókhalds flokkanna og verður því spennandi að sjá viðbrögð þeirra við því útspili samstarfsflokksins í ríkisstjórninni að styðja slíkar tillögur. Lýðræði þrífst ekki án stjórnmálaflokka og stjórnmálaflokkar þrífast ekki án peninga til að halda úti flokksstarfi sínu. Auk fjárútláta við venjubundið starf þeirra bætist við kostnaðurinn af auglýsingaherferðum fyrir kosningnar, sem getur hlaupið á tugum milljónum króna. Og hverjir borga brúsann? Ríkið að einhverju leyti með föstu framlagi sem er miðað við hlutfallslega skiptingu þingsæta í undangengnum kosningum, en stórar fjárupphæðir koma úr vösum flokksmanna, vina og velunnara. Rök andstæðinga þess að opna bókhald flokkanna eru þau að á sama hátt og það er einkamál hvers og eins hvaða flokk hann kýs sé það einkamál hans hvaða flokk hann styðji með fjárframlögum. Æ sér gjöf til gjalda segir hins vegar gamalt og gott máltæki sem nær ágætlega utan um af hverju við kjósendur eigum kröfu um að sjá hverjir það eru sem kosta baráttu alþingismanna okkar fyrir sætum sínum. Það má líka hafa bak við eyra orð þess oft á tíðum vanmetna fyrrverandi forseta Bandaríkjanna Ronalds Reagan, sem fangaði sambúð stjórnmálamanna og fjármagnseigenda einu sinni með þessum orðum: "Stjórnmál eiga víst að vera næstelsta atvinnugreinin. Ég hef komist að því að þau eru nauðalík þeirri elstu."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×