Erlent

Segir Japana þurfa að vinna traust

Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, gaf í skyn í gær að Japanir verðskulduðu ekki að fá varanlegt sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld í Japan ættu eftir að vinna traust grannþjóðanna áður en þau öxluðu nýja ábyrgð á alþjóðavettvangi. Talsmenn Kínastjórnar vörðu það hvernig þau hefðu tekið á múgæsingarmótmælum gegn Japönum sem farið hafa fram í kínverskum borgum síðustu daga og yfirvöld hafa sýnt lítinn vilja til að hamla gegn. Rúður voru brotnar í sendiráði Japans í Peking á laugardag, en kveikjan að þessari reiði Kínverja eru fréttir af því að japönsk menntamálayfirvöld lögðu blessun sína yfir nýjar kennslubækur, þar sem að mati Kínverja er gert allt of lítið úr voðaverkum Japana í Kína og öðrum löndum sem Japanar héldu hersetnum í síðari heimsstyrjöld. Kínverski forsætisráðherrann lét hafa eftir sér, að hin sterku viðbrögð sem málið hefði vakið í Kína ætti að verða ráðamönnum í Tókýó tilefni til að endurskoða alvarlega stefnuna á sæti í Öryggisráðinu. Japönsk stjórnvöld hafa farið fram á afsökunarbeiðni frá Kínverjum fyrir spjöllin sem unnin voru á sendiráðinu. Því hefur Kínastjórn tekið fálega. Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, lýsti áhyggjum af ástandinu og áminnti kínversk stjórnvöld um að þau væru ábyrg fyrir öryggi japanskra þegna í Kína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×