Erlent

Lofa Súdönum fé til uppbyggingar

Súdönum hefur verið heitið fjórum komma fimm milljörðum dollara, um 275 milljörðum króna, á næstu þremur árum til endurreisnar í landinu eftir tuttugu og eins árs borgarastyrjöld. Þetta kom fram í lok tveggja daga ráðstefnu um framtíð Súdans sem haldin var í Osló, en alls tóku 60 þjóðir þátt í henni. Með loforðinu um fjárhagsaðstoð vilja löndin undirstrika mikilvægi friðarsamnings sem gerður var í Súdan í upphafi árs milli stjórnvalda og uppreisnarmanna í suðurhluta landsins, en alls létust um tvær milljónir í átökum sem stóðu í ríflega tvo áratugi. Fjármunirnir sem lofað hefur verið verða notaðir til að fæða þjóðina, aðstoða flóttamenn við að snúa heim og til að endurreisa innviði samfélagsins. Þá lýsti Robers Zoellick, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, því yfir að bandarísk stjórnvöld hygðust veita um 1,7 milljarða dollara, rífega hundrað milljarða króna, til að styðja við friðarsamninginn en krafðist þess á móti að stjórnvöld í Khartoum gerðu meira til að stöðva árásir arabískra vígamanna í Darfur-héraði í vesturhluta landsins. Þar hafa átök staðið yfir í tvö ár og tugir þúsunda hafa dáið og tvær milljónir þurft að yfirgefa heimili sín.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×