Erlent

Ótti um hátækninjósnir

Mikill viðbúnaður er í Páfagarði vegna kardinálafundarins í næstu viku þar sem nýr páfi verður valinn. Hafa klerkarnir ekki síst áhyggjur af því að háþróaður tæknibúnaður verði notaður til að hlera það sem fram fer á fundi þeirra í Sixtínsku kapellunni. Kardinálarnir 115 eru afar leyndardómsfullir vegna páfakjörsins enda munu ræða þeir ýmis viðkvæm mál á fundinum sem tengjast kjörinu. Á hinn bóginn vilja allir fjölmiðlar vera fyrstir með fréttirnar og því óttast klerkarnir að einhverjir beiti bellibrögðum til þess arna. Mikil framþróun hefur orðið á sviði hátækni síðan páfi var síðast valinn, árið 1978. Sérstakir hljóðnemar í allt að 400 metra fjarlægð geta greint umræðurnar með því að nema titring á rúðum kapellunnar. Þá gerir tæknin mönnum kleift að kveikja á farsímum annars fólks og hlera samræður sem eiga sér stað í nágrenninu. Farsíma- og tölvunotkun kardinálanna er bönnuð í Páfagarði af þessum sökum en eins er víst að allar vistarverur þeirra verði fínkembdar í leit að örsmáum hljóðnemum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×