Erlent

Felldu tólf talibana í átökum

Tólf uppreisnarmenn úr röðum talibana létust í átökum við bandarískar og afganskar hersveitir í Suðaustur-Afganistan í dag. Uppreisnarmennirnir voru drepnir þegar þeir reyndu að ráða Kheyal Baaz Khan Sherzai, fyrrverandi yfirmann afganska hersins í Khost-héraði, af dögum þar sem hann var á ferðalagi nærri bænum Gardez í Paktia-héraði. Bandarískar og afganskar sveitir svöruðu árásinni úr lofti og á landi. Talsmaður talibana neitar að svo margir hafi látist í átökunum og segir aðeins einn mann úr þeirra röðum hafa fallið en að þeir hafi drepið fimm afganska hermenn. Bandaríkjamenn hafa staðfest að tveir bandarískir hermenn hafi særst. Árásum uppreisnarmanna í suður- og austurhluta landins hefur fjölgað nokkuð að undanförnu og til að mynda létust fimm lögreglumenn í átökum við uppreisnarmenn í Zabul-héraði á fimmtudaginn var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×