Erlent

Flugumferð brátt í fyrra horf

Flugumferð í heiminum er loksins farin að ná sama umfangi og var fyrir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september árið 2001, að stórlega dró úr flugumferð um allan heim. Það stafaði ekki hvað síst af því að hryðjuverkamennirnir rændu farþegaflugvélum til að fremja fjöldamorðin. Bandarísku flugfélögin United og American Airlines sem jafnframt eru stærstu flugfélög í heimi fóru svo illa út úr þessu að þau eru enn í sárum fjárhagslega og nokkur þekkt evrópsk félög, eins og Svissair, lögðu upp laupana. Flugleiðir drógu stórlega úr framboði sínu fyrstu mánuðina á eftir en félagið rétti fyrr úr kútnum en mörg önnur félög á alþjóðaleiðum og er fyrir þónokkru búið að ná fyrra framboði og gott betur. Farþegafjöldinn jókst tildæmis um 40 prósent á milli sumarvertíðanna árið 2003 og 2004 og allt útlit er fyrir talsverða aukningu í ár. Það er svolítið misjafnt hvar flugið hefur tekið best við sér. Innanlandsflug í Bandaríkjunum er til dæmis enn undir meðallagi áranna fyrir hryðjuverkin en innanlandsflug í Kína hefur vaxið verulega, sem hefur áhrif á heimsvísu, og umsvif lágjaldafélaga aukast hröðum skrefum. Í þessum mánuði er áætlað að að farnar verði 2.270.0000 ferðir með farþega í heiminum, sem er sama tala og í apríl árið 2001, fyrir hryðjuverkin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×