Erlent

Umdeildur kardínáli leiðir athöfn

Minningarathöfn verður haldin um Jóhannes Pál páfa í Péturskirkjunni í Róm í dag. Athöfnina leiðir fyrrverandi biskup sem segja varð af sér vegna barnaníðingsmála. Bernard Law var erkibiskup í Boston þar til í desembermánuði árið 2002 þegar hann sagði af sér í kjölfar uppljóstrana þess efnis að hann hefði leyft prestum sem sakaðir voru um að misnota börn að skipta um sóknir til að komast hjá gagnrýni og hneykslismálum. Law baðst afsökunnar á athæfinu og sagði af sér. Skömmu síðar var hann kallaður til Rómar og gerður að erkipresti í basilíku heilagrar Maríu, mesta helgistað í kristinni trú sem helgaður er Maríu mey, að sögn þeirra sem til þekkja. Skipun Laws olli á sínum tíma hneykslan og reiði meðal fórnarlamba barnaníðinga í prestastétt sem Law sá ekki ástæðu til að reka heldur aðeins færa til í starfi. Þessum fórnarlömbum sárnar að hann skuli leiða eina af níu minningarmessum um Jóhannes Pál. Sérfræðingar í málefnum kaþólsku kirkjunnar segja það þó fullkomlega eðlilegt í ljósi þess að Law sé nú áhrifamesti Bandaríkjamaðurinn innan kirkjunnar og þungavigtarmaður í Páfagarði. Hann er meðal þeirra kardínála sem fá innan skamms það verk að velja eftirmann Jóhannesar Páls annars. Allt þetta finnst fórnarlömbum barnaníðinganna benda eindregið til þess að kaþólska kirkjan hafi ekkert lært af hneykslismálunum í Bandaríkjunum þar sem enga iðrun sé að finna og því síður stefnubreytingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×