Erlent

Erum í kapphlaupi við tímann

Mohammed El Baradei, yfirmaður Alþjóðlegu kjarnorkumálastofnunarinnar, segir stofnunina hafa áreiðanlegar upplýsingar um að hryðjuverkasamtökin al Kaída reyni nú ákaft að verða sér úti um kjarnorkuvopn. Þetta sagði El Baradei í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2 í gær. Hann segir að nú sé einungis tímaspursmál þangað til al Kaída tekst þetta. "Við erum í kapphlaupi við tímann," segir hann og heldur því fram að heiminum hafi aldrei stafað meiri hætta af kjarnorkuvopnum en einmitt núna, þrátt fyrir að allt tal um kjarnorkuhættuna hafi minnkað til muna frá því kalda stríðinu lauk. Hann bendir á að þeim löndum, sem hafi yfir kjarnorkuvopnum að ráða, hafi fjölgað á síðustu árum. Pakistan, Indland og nú síðast Norður-Kórea séu komin í klúbbinn, sem upphaflega samanstóð af Bandaríkjunum, Sovétríkjunum, Frakklandi, Bretlandi, Kína og Ísrael. Nú beinist grunur manna að Íran, og fylgist Alþjóða kjarnorkumálastofnunin grannt með þróun mála þar í landi. Mesta hættan stafi þó af því ef samtök á borð við al Kaída komist yfir kjarnorkuvopn. "Þeir myndu nota þau," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×