Erlent

Mjótt á mununum í Bretlandi

Skoðanakannanir benda til þess að mjótt verði á mununum í bresku þingkosningunum í maí. Þrjú til sjö prósentustig skildu Verkamannaflokkinn og Íhaldsflokkinn að í þremur könnunum sem birtust í gær. Flokkarnir mældust báðir með 37 prósent ef aðeins var tekið tillit til þeirra sem sögðust staðráðnir í að kjósa. Kosningabaráttan fór aftur í gang eftir stutt hlé vegna útfarar páfa og brúðkaups Karls Bretaprins. Tony Blair tók formlega við tilnefningu sinni sem frambjóðandi Verkamannaflokksins í gær og sagði við það tækifæri að hann myndi setja mennta- og efnhagsmál á oddinn. Hann vék ekki orði að Írakstríðinu. Málefni innflytjenda hafa verið ofarlega á baugi hjá Michael Howard, leiðtoga Íhaldsflokksins, en hann sakar Blair um að forðast að tala um þau. Howard lofar að lækka skatta, auka löggæslu og endurskoða innflytjendalöggjöfina. Charles Kennedy, leiðtogi Frjálslyndra hefur útilokað að hann muni mynda stjórn með Verkamanna- eða Íhaldsflokknum, en Frjálslyndir voru eini stóri flokkurinn sem eru á móti Íraksstríðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×