Erlent

Fresta aðgerðum gegn veirunni

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur frestað sóttvarnaraðgerðum gegn hinni skæðu Marburg-veiru í Angóla vegna árása á heilbrigðisstarfsfólk. Tæplega 200 manns hafa látist úr veirunni sem er skyld hinni skæðu E-bóla veiru. Nánast allir sem veikjast týna lífi og engin lækning eða bólusetning er til. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að veiran breiðist hratt út um héruð landsins en einkennin eru magaverkir sem enda svo í miklum blæðingum. Sérfræðingar telja að ástandið muni versna á næstunni og hvetja til ýtrustu sóttvarna, ekki aðeins í Angóla heldur einnig í nágrannalöndunum Kongó, Namibíu og Sambíu. Aðgerðir voru hafnar til að berjast gegn útbreiðslu veikinnar en nú hafa þær allar verið stöðvaðar í bili. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ráðist hafi verið á starfsfólk hennar við störf í Uige-héraði í Angóla þar sem flestir hafa veikst. Telja starfsmennirnir að ástæðan sé sú að íbúar standi í þeirri trú að starfsmenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hafi borið vírusinn á svæðið og smitað aðra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×