Erlent

Skrúfað fyrir fjölmiðlaviðtöl

Kardinálaráð kaþólsku kirkjunnar ákvað í gær að meðlimir þess skyldu hætta þegar í stað að veita nokkur fjölmiðlaviðtöl eða tjá sig opinberlega. Gildir bannið uns kardinálarnir hafa komist að niðurstöðu um það hver úr þeirra röðum muni setjast næstur á páfastól, að Jóhannesi Páli II gengnum. Kardinálarnir 130, sem saman eru komnir í Páfagarði, samþykktu einróma að skrúfa fyrir öll frekari fjölmiðlaviðtöl uns kjörfundur hefst að baki luktum dyrum Sixtínsku kapellunnar hinn 18. apríl, það er á mánudaginn eftir viku. Að sögn Joaquins Navarro-Valls, talsmanns Páfagarðs, er ákvörðunin "aðgerð í nafni skynseminnar". Hann kynnti ákvörðunina í gær sem beiðni til fjölmiðlamanna að láta vera að biðja kardinálana um viðtöl. Í ítölskum fjölmiðlum voru í gær líkur leiddar að því að Joseph Ratzinger, oddviti kardinálaráðsins, sem hélt líkræðu Jóhannesar Páls og hefur verið nefndur sem hugsanlegur arftaki hans, hefði átt frumkvæði að fjölmiðlabanninu. Að kardinálarnir skuli ekki veita nein viðtöl næstu daga mun þó ábyggilega ekki slá neitt á vangaveltur í fjölmiðlum um það hvernig kardinálarnir meta hvern annan og hver þeirra sé líklegastur til að hljóta stuðning hinna til páfadóms. Strangt til tekið er hver einasti fullorðinn kaþólskur karlmaður til þess bær að vera kjörinn páfi, en aldalöng hefð er fyrir því að kardinálarnir velji einn úr sínum hópi. Heimsathyglin beinist ekki síst að meintri togstreitu milli íhaldssamra og frjálslyndari hreyfinga innan kirkjunnar og að því hvort kardináli frá Rómönsku Ameríku eða Afríku eigi möguleika á því nú að vera útnefndur páfi. Navarro-Valls sagði að 115 kardinálar myndu sitja kjörfundinn. Tveir kardinálar sem rétt hafa til þátttöku hafa boðað forföll, en það eru Jaime L. Sin frá Filippseyjum og Alfonso Antonia Suarez Rivera frá Mexíkó. Rétt til þátttöku í kjöri páfa hafa allir kardinálar sem ekki hafa náð 80 ára aldri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×