Erlent

Camilla virðir minningu Díönu

Rúmlega þrjátíu ára ástarsaga náði hápunkti í dag þegar Karl Bretaprins og Camilla Parker Bowles gengu í hjónaband. Camilla er stóra ástin í lífi Karls. Þau hittust fyrst á póló-leik árið 1971 þegar hann var tuttugu og tveggja ára og hún tuttugu og þriggja. Þau áttu í ástarsambandi í tvö ár en svo fór að hún giftist herforingja og eignaðist með honum tvö börn. Karl kvæntist aftur Díönu Spencer í athöfn fyrir 24 árum sem kölluð var brúðkaup aldarinnar. Bæði skildu, eins og frægt er orðið, og hafa þurft að berjast við almenningsálitið sem hefur ekki verið hliðhollt Camillu eftir frásagnir Díönu prinsessu af því að Camilla hafi í raun verið þriðji aðilinn í hjónabandi þeirra Karls. Brúðkaupið í dag hafði töluvert annan og látlausari brag en brúðkaup Karls og Díönu. Götur Windsor voru fullar af fólki þegar brúðhjónin komu saman til ráðhússins til borgaralegrar hjónavígslu. Aðeins þrjátíu gestir voru viðstaddir og meðal þeirra var ekki Elísabet drottning. Drottningin mætti hins vegar í 800 manna athöfn í Windsor-kastala þar sem brúðhjónin fengu blessun. Mikilar öryggisráðstafanir voru gerðar vegna brúðkaupsins. Allt gekk þó eins og í sögu, utan þess að lögregla handtók strípaling sem hljóp nokkurn spotta út úr mannfjöldanum. Camilla er nú tæknilega orðin prinsessan af Wales en vill ekki nota þann titil vegna minningarinnar um Díönu. Í stað þess ber hún titilinn hertogaynjan af Cornwall. Kannanir meðal almennings hafa sýnt andstöðu við að hún verði drottning. Þegar Karl verður konungur kýs hún því að verða ekki kölluð drottning heldur eiginkona konungsins.
MYND/AP
MYND/AP
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×