Erlent

Khatami afneitar handabandi

Mohammad Khatami Íransforseti harðneitaði því í gær að hann hefði tekist í hendur og spjallað við Moshe Katsav Ísraelsforseta við jarðarför Jóhannesar Páls II páfa í Róm á föstudag. Eftir útförina hafði Katsav látið hafa eftir sér að hann hefði hitt og skipst á nokkrum orðum við Khatami og Bashar Assad, forseta Sýrlands, en Íran og Sýrland eru erkióvinir Ísraelsríkis. En í írönskum ríkisfjölmiðlum var í gær haft eftir Khatami að þótt Íran viðurkenndi "sið- og rökfræðilega" ekki Ísraelsríki myndi Íran ekki hafa afskipti af friðarsamningaferli Ísraela og Palestínumanna. Ísrael og Íran hafa ekki haft nein diplómatísk samskipti síðan fyrir klerkabyltinguna árið 1979 og ýmis herská samtök andstæðinga Ísraels hafa lengi notið stuðnings frá Íran.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×