Erlent

Börn reykjandi mæðra vitgrennri

Börn mæðra sem reykja á meðgöngu verða á fullorðinsárum ekki eins greind og börn mæðra sem ekki reykja. Þetta er niðurstaða nýrrar danskrar rannsóknar sem greint var frá á fréttavef dagblaðsins Politiken. Rannsóknin náði til 3.044 danskra karlmanna í herþjónustutíð þeirra. Þeir eru allir fæddir á árunum 1959-1961. Niðurstöðurnar sýna að konur sem reyktu á meðgöngu eignuðust börn sem mældust fullorðin með lægri greindarvísitölu en börn reyklausra mæðra. Lífefnafræðilegrar skýringar á þessu kann að vera að leita í því að efni sem fer úr tóbaksreyknum í blóð hinnar verðandi móður hafa áhrif á miðtaugakerfið í fóstrinu, með þeim afleiðingum að heilastarfsemi þess þroskast ekki með sama hætti og í fóstrum reyklausra mæðra. Þessar niðurstöður bætast við nýlega bandaríska rannsókn sem benti til að börn sem verða fyrir óbeinum reykingum, jafnvel aðeins í litlum mæli, fyrstu æviárin, standi verr að vígi í lífsbaráttunni en börn sem alast upp á reyklausum heimilum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×