Erlent

Fiskidagurinn mikli í Nígeríu

Það er mikið um dýrðir í Argungu í Nígeríu þessa dagana þar sem árleg fiskveiðikeppni er haldin í fljótinu Matan Fada. Yfir tíu þúsund veiðimenn taka þátt í keppninni. Tveir eru saman í liði og heldur annar á flotholti sem búið er til úr graskeri en hinn leitar risafiskjar í leirugu vatninu með net í hönd. Verðlaunin eru ekki ekki af verri endanum, fjölskyldubifreið og fimmtíu þúsund krónur í reiðufé. Veiðikeppnin í Argungu er kærkomin í þessu landi sem kemst oftar í fréttirnar fyrir umfangsmikil spillingarmál. Forsvarsmenn hennar binda vonir við að hún verði aðdráttarafl fyrir ferðamenn þegar fram í sækir. Keppnin á sér samt yfir sjötíu ára langa sögu því árið 1934 innsigluðu leiðtogar Kebbi-konungsdæmisins og Sokoto-kalífadæmisins friðarsamning sinn með því að keppa um hvor gæti veitt stærsta fiskinn. Þótt íbúar héraðsins séu flestir múslimar þá er andatrú þar einnig áberandi. Margir telja að fiskarnir í Matan Fada hafi eitt sinn verið fólk. Vondir áar þess breyttu því hins vegar í fiska og átu þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×