Erlent

Segir vanda Bandaríkjanna leystan

Takk Ísland, þið megið eiga Fischer, segir í fyrirsögn á vefútgáfu bandaríska blaðsins Rocky Mountain News. Þar segir að Íslendingum hafi nú fjölgað um einn og það sé vandræðaskákmaðurinn og gyðingahatarinn Bobby Fischer. Segir í grein blaðsins að þar með sé búið að leysa vanda Japans og það kunni að leysa vanda Bandaríkjanna að hann fari til Íslands. Fischer verður sleppt úr haldi í fyrramálið að japönskum tíma, eða í nótt að íslenskum tíma, og fær þá ferðafrelsi til þess að fara til Íslands. John Bosnitch, talsmaður Fischers í Japan, segir að fulltrúar japanskra stjórnvalda hafi staðfest þetta í morgun. Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í Japan, tilkynnti japönskum yfirvöldum með formlegum hætti í morgun að Fischer væri orðinn íslenskur ríkisborgari, en gefið var út neyðarvegabréf fyrir Fischer sem gerir honum kleift að ferðast sem Íslendingur. Yfirvöld í Japan ákváðu í kjölfarið að leysa Fischer úr haldi eftir að þau fengu í hendur gögn sem sönnuðu að honum hefði verið veittur ríkisborgararéttur, en hann hefur verið í haldi í níu mánaða í innlytjendabúðum í Japan frá því hann var handtekinn fyrir að vera með ógilt vegabréf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×