Erlent

Næringarslanga ekki tengd aftur

Terri Schiavo deyr að líkindum innan hálfs mánaðar eftir að dómstólar tóku fyrir að næringarslanga yrði tengd við hana á ný. Örlög Schiavo hafa verið tilefni deilna og heitra umræðna í Bandaríkjunum um árabil en náð hámarki undanfarnar vikur. Eiginmaður hennar vill að næringarslangan verði aftengd og Terri leyft að deyja en foreldrar hennar eru því mótfallnir. Bandarískir hægrimenn, kristnir og andstæðingar fóstureyðinga hafa veitt foreldrunum stuðning sem leiddi til sértækra laga á mánudaginn sem fólu hærra dómstigi lögsögu. Dómari komst í gær að því að ekki bæri að tengja slönguna við Schiavo á ný og áfrýjunardómstóll, sem foreldrarnir leituðu til, staðfesti þann úrskurð í morgun. Verði næringarslangan ekki tengd aftur við Schiavo deyr hún innan hálfs mánaðar, en hún hefur legið heilasködduð í hálfgerðu dái á sjúkrahúsi í fimmtán ár. Sérfræðingar segja það ekki ómannúðlegt að fjarlægja næringarslönguna sem hefur í raun haldið lífinu í Terri. Dauðdaginn sem fylgi sé ekki kvalarfullur fyrir sjúklinginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×