Erlent

Spenna eykst vegna tilræðis

Reiði ríkir og spenna magnast í Líbanon í kjölfar sprengjutilræðis í verslunarmiðstöð skammt frá Beirút í morgun. Tveir týndu lífi og fimm særðust. Verslunarmiðstöðin var lokuð þegar atvikið varð og því er talið að ekki hafi fleiri farist, en björgunarlið leitar þó í rústunum. Hliðar miðstöðvarinnar þeyttust nánast út og þakið hrundi þegar sprengjan sprakk. Sprengjan sprakk í hverfi kristinna andstæðinga sýrlenska hersetuliðsins en þetta er í annað sinn á fimm dögum sem sprengja springur á þessu svæði. Atvikin eru til þess fallin að auka enn á spennuna og valda ringulreið í aðdraganda kosninga sem fram eiga að fara eftir hálfan mánuð. Kristinir stjórnmálaleiðtogar gáfu í skyn að sýrlenskar öryggissveitir stæðu á bak við tilræðin en hömruðu á því að þeir hygðust ekki láta gabba sig út í nýtt stríð, en borgarastyrjöld geisaði í landinu frá 1975 til 1990.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×