Erlent

Framboð Mussolini löglegt

Æðsti stjórnsýsludómstóll Ítalíu úrskurðaði á þriðjudag að framboð flokks Alessöndru Mussolini, barnabarns fastistaleiðtogans, í héraðskosningum í Lazio-héraði á Mið-Ítalíu væri löglegt, en kosningarnar fara fram 3.-4. apríl. Þar með sneri dómstóllinn við fyrri úrskurðum neðri dómstiga, sem höfðu komist að þeirri niðurstöðu að hundruð nafna á lögboðnum undirskriftalista til stuðnings framboði flokksins í héraðinu væru fölsuð. Áfrýjunardómstóllinn féllst á áfrýjun Mussolini og úrskurðaði að undirskriftalistarnir skyldu teknir gildir, að því er ANSA-fréttastofan greindi frá. Mussolini fór í hungurverkfall eftir að fyrsti úrskurðurinn féll sem hafnaði framboði flokks hennar. Hún fagnaði niðurstöðu áfrýjunardómstólsins sem sigurs réttlætisins. Mussolini sagði sig fyrir tveimur árum úr Þjóðarbandalaginu, sem undir forystu Gianfranco Fini á aðild að ríkisstjórn Silio Berlusconi, og stofnaði eigin flokk. Hún segir Fini hafa svikið arfleifð afa síns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×