Erlent

Spenna fer vaxandi í Kirgisistan

Ólga vex enn í fyrrum Sovétlýðveldinu Kirgisistan. Stjórnarandstæðingar segjast berjast fyrir lýðræðisumbótum en Akayev forseti og talsmenn hans segja að glæpamenn séu að reyna að ná undirtökunum í landinu. Askar Askayev, forseti Kirgisistan, lýsti því yfir í gær að hann myndi ekki lýsa yfir neyðarlögum í landinu þrátt fyrir róstur síðustu daga. Í fyrradag lögðu stjórnarandstæðingar undir sig Osh, næststærstu borg landsins, auk annarra smærri bæja. Þeir mótmæla meintum svikum í þingkosningum landsins í febrúar en þar fékk stjórnarandstaðan aðeins sex þingsæti af 75. Talsmaður forsetans kvað fast að orði í gær þegar hann sagði að mótmælin væru að undirlagi mafíunnar sem reyndi með þessu að ná völdum í Osh og Jalal-Abad. Mikið af heróíni frá Afganistan fer um þessar borgir á leiðinni til Evrópu í gegnum Rússland. Rólegt var í Osh í gær en lögreglan í Bishek var í viðbragðsstöðu vegna mótmæla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×