Erlent

Schiavo fær að deyja

Allt útlit er fyrir að Terri Schiavo fái að deyja eftir að alríkisdómari hafnaði beiðni foreldra hennar í gær um að útbúnaður sem veitir henni næringu verði tengdur á ný. Þar með sér fyrir endann á málarekstri sem tekið hefur tæp fimm ár. James Whittemore alríkisdómari sagði í úrskurði sínum að foreldrum Terri Schiavo, Bob og Mary Schindler, hefði mistekist að sýna fram á að raunhæfar líkur væru á að dóttir þeirra næði meðvitund á nýjan leik. Terri Schiavo skaddaðist alvarlega á heila árið 1990 þegar hjarta hennar stöðvaðist í stutta stund. Hún er án meðvitundar, getur andað hjálparlaust en þarf að fá næringu í æð. Michael, eiginmaður hennar, hefur undanfarin fimm ár barist fyrir því að næringargjöf verði hætt en foreldrar hennar vonast til að hún nái meðvitund og leggjast því gegn áformum tengdasonar síns. Ættingjar Terri eru miður sín yfir úrskurði dómarans. "Að sjá foreldra mína ganga í gegnum þetta er hörmulegt. Það væri rétt fyrir dómarann að fylgjast með því líka," sagði Bobby Schindler, bróðir Terri, við fréttamenn í gær. Talsmaður Jeb Bush, ríkisstjóra í Flórída og bróður George W. Bush, sagði að yfirmaður sinn væri mjög vonsvikinn yfir úrskurðinum og myndi halda baráttu sinni fyrir lífi Terri áfram. Lögfræðingar fjölskyldunnar sögðu að úrskurðinum yrði áfrýjað. Talsmenn mannréttindasamtaka fögnuðu hins vegar úrskurði Whittenmore. "Það sem þessi ákvörðun þýðir er að frelsi fólks er verndað til að ákveða sitt skapadægur án afskipta stjórnmálamanna," sagði einn þeirra. Engin yfirlýsing liggur hins vegar fyrir um vilja Terri í þessum efnum. Michael Schiavo lýsti í viðtali við Larry King á sjónvarpsstöðinni CNN í fyrrakvöld hneykslun sinni á að þingmenn og forsetinn skyldu hafa blandað sér í einkamál. Lögfræðingur hans sagði í samtali við fréttamenn í gær að réttindi væru brotin á konunni með því að halda henni í þessu ástandi. "Lífið er heilagt en það er frelsið líka, sérstaklega í þessu landi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×