Innlent

Vísað frá bráðamóttöku eftir kl. 5

Lítið gagn er í bráðamóttöku sem hættir að taka við sjúklingum eftir að dagvinnutíma lýkur, segir framkvæmdastjóri Geðhjálpar og vísar þar til bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans sem í vikunni vísaði bráðveikum manni frá því klukkan var meira en fimm. Karlmaður á tvítugsaldri sem á við alvarlegar geðraskanir að stríða reyndi í vikunni að taka eigið líf, nokkuð sem hann hefur reynt alloft. Foreldrar hans kölluðu eftir aðstoð sjúkrabíls og lögreglu. Móðir hans segir hann einungis hafa samþykkt að fara á bráðamótttöku geðdeildarinnar í fylgd foreldra sinna. Þaðan var þeim hins vegar vísað vegna þess hve seint að deginum þau komu. Foreldrarnir fóru þá með hann aftur heim. Ástand hans var afar slæmt, segir móðirin, og kölluðu þau til næturlækni og fyrir tilstuðlan hans var maðurinn loks lagður inn á sjúkrahús. Móðirin vildi ekki koma í sjónvarpsviðtal af ótta við að sonur hennar yrði látinn gjalda þess með einum eða öðrum hætti. Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að það séu mörg dæmi um að fólki sé vísað frá og sagt að mæta snemma daginn eftir, það sé minna álag fyrir hádegi. Þetta hafi ekkert breyst. Á hverju ári sé bent á það að þessi sjúkdómur sé þess eðlis að hann fari ekki í manngreinarálit og menn geti ekki haldið í sér. Það þýði ekki að loka geðdeildum yfir hátíðar eða þegar sumarfrí séu. Þessu þurfi að sinna allan sólarhringinn en því sé ekki til að dreifa. Fréttastofan hafði samband við bráðamótttöku geðdeildarinnar en fékk ekki önnur viðbrögð við þessari gagnrýni en að það sé ekki föst vinnuregla að leggja einungis inn sjúklinga á milli klukkan átta og fimm. Sveinn segir að í augum Geðhjálpar sé bráðamóttakan ekkert annað en slysavarðstofa og ef menn handleggsbrotni geri þeir það ekkert endilega á milli átta og fjögur á daginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×