Erlent

Eldflaugasmygl til Írans og Kína

Úkraínskir vopnasalar smygluðu átján eldflaugum sem geta borið kjarnaodda til Írans og Kína á meðan Leoníd Kútsjma gegndi forsetaembætti í Úkraínu. Enn syrtir í álinn fyrir forsetann fyrrverandi. Fljótlega eftir að Viktor Júsjenkó komst til valda í Úkraínu var tekið til við að rannsaka ásakanir um grófa spillingu í valdatíð forvera hans og í síðasta mánuði komust menn á snoðir um umfangsmikið vopnasmygl sem menn handgengnir Kútsjma stóðu á bak við. Í gær lýsti saksóknari svo yfir að átján eldflaugum sem skýrslur sögðu að hefðu farið til Rússlands hefði í raun verið smyglað til Írans og Kína. Flaugarnar eru af gerðinni Kh55 og geta borið allt að 200 kílótonna kjarnaodda og draga tæpa 3.000 kílómetra. Engir kjarnaoddar fylgdu þó flaugunum. Kínverjar búa yfir kjarnorkuvopnum og Íranar eru taldir hafa áhuga á að eignast þau. Kútsjma hefur neitað öllum sakargiftum, rétt eins og í síðustu viku þegar hann neitaði að eiga nokkra aðild að morðinu á blaðamanninum Gongadze árið 2000.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×