Erlent

Hart deilt um frumvarp í Bretlandi

Hatrömm kosningabarátta er hafin í Bretlandi og endurspeglast hún í gríðarhörðum deilum um frumvarp bresku ríkisstjórnarinnar um varnir gegn hryðjuverkum. Breska ríkisstjórnin verður lögum samkvæmt að boða til þingkosninga fyrir maílok. Þótt dagsetningin hafi enn ekki verið ákveðin nákvæmlega er nú allt breskt stjórnmálalíf farið að snúast um kosningarnar og hatrammar deilur á milli stjórnmálaflokkanna þriggja sem berjast um þingsætin. Eitt helsta deilumálið nú er afar umdeilt frumvarp ríkisstjórnarinnar um varnir gegn hryðjuverkum sem meðal annars gengur út á það að skerða lýðréttindi manna. Tony Blair forsætisráðherra hefur snúist í afstöðu sinni til þessara mála því þegar hann hóf fyrst afskipti af pólitík var hann ákafur talsmaður þess að yfirvöld mættu alls ekki takmarka frelsi fólks vegna hagsmuna ríkisins. Nú hins vegar segir Blair að öryggi ríkisins og þjóðarinnar sé ofar réttindum einstaklingsins, hryðjuverkahættan sé svo mikil að ekki verði hjá því komist að bregðast við með því að auka heimildir löggæslumanna til dæmis til að handtaka og halda fólki í stofufangelsi. Fulltrúadeild breska þingsins samþykkti í gærkvöldi þetta hryðjuverkafrumvarp eftir að ríkisstjórnin hafði gert á því nokkrar breytingar til að koma til móts við gagnrýnisraddir. Í þessum töluðu orðum stendur yfir umræða um frumvarpið í lávarðadeildinni og alls er óvíst hvort það rennur þar í gegn. Stjórnvöld leggja mikið upp úr því að frumvarpið verði að lögum fyrir vikulok þegar núverandi lög gegn hryðjuverkum falla úr gildi. Takist ekki að fá frumvarpið samþykkt er hugsanlegt að það verði að sleppa nokkrum föngum sem verið hafa í haldi í þrjú ár í tengslum við árásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×