Erlent

Öfgamenn komi í stað Maskhadovs

Líklegt er að morð rússneskra hermanna á Aslan Maskhadov, leiðtoga tsjetsjenskra uppreisnarmanna, í gær hleypi frekari hörku í aðgerðir aðskilnaðarsinnaðra Tsjetsjena. Maskhadov var talsmaður hófsamra Tsjetsjena og nú er talið að öfgasinnaðir hryðjuverkamenn nái völdum. Samkvæmt rússneskum stjórnvöldum var Aslan Maskhadov ótýndur hryðjuverkamaður og réttdræpur sem slíkur. Það er þó umdeilt og margir segja að hann hafi aðeins verið uppreisnarmaður eða skæruliði í réttmætri sjálfsstæðisbaráttu Tsjetsjena enda hafi hann ætíð fordæmt hryðjuverkaárásir öfgasinnaðra Tsjetsjena, meðal annars árásina á leikhúsið í Moskvu og barnaskólann í Beslan. Maskhadov, sem leiddi fyrstu uppreisn Tsjetsjena árið 1994 og var í kjölfarið kjörinn forseti Tjsetjeníu, var ötull talsmaður þess að Tsjetsjenar og Rússar settust niður til friðarviðræðna og víst er að með falli hans er einn aðaltalsmaður hófsamra Tsjetsjena úr leik. Aleksei Moloshenko, rússneskur fréttskýrandi, telur að þar sem hinn hófsami Maskhadov sé fallinn frá verði Rússar varir við róttækari aðgerðir því nú sé aðeins einn pólitískur og hernaðarlegur leiðtogi í Tsjetsjeníu, Samil Basajev, og hann sé í raun bara hryðjuverkamaður. Uppreisnarmenn ætla að velja eftirmann Maskhadovs á næstu dögum og fréttaskýrendur óttast einmitt að annaðhvort Basajev eða aðstoðarmaður hans, Doku Umarov, sem er álíka öfgasinnaður, verði fyrir valinu. Morðið á Maskhadov er því skammgóður vermir fyrir Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Það er líklegt að vinsældir hans aukist tímabundið vegna þessa en lausn Tsjetsjeníudeilunnar virðist hins vegar aðeins verða fjarlægari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×