Erlent

Konur kæra múslimaleiðtoga

Hópur 37 innflytjendakvenna í Danmörku hefur kært bænaformanninn Raed Hleihel og trúarsamtök múslima fyrir niðrandi ummæli og hótyrði í garð kvenna. Kæran var lögð fram á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í gær. Að sögn Politiken byggir kæran á ummælum sem Hleihel lét falla við föstudagsbænir í mosku í Kaupmannahöfn 18. febrúar. Þar sagði hann að konur væru stundum "verkfæri djöfulsins" og að himnaríki væri lokað konum sem færu á hárgreiðslustofur og notuðu ilmvatn og andlitsfarða. Kasem Said Ahmed, formaður Íslömsku trúarsamtakanna í Danmörku, sagði Hleihel hafa "fullan rétt til að kalla konur "verkfæri djöfulsins"." Að mati kærenda er með ummælum sem þessum hvatt til ólíðandi ofbeldis gegn konum. Hollenska þingkonan Ayaan Hirsi Ali, sem er úr sómalskri múslimafjölskyldu og kastljós fjölmiðlanna beindist að í kringum morðið á kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gogh í fyrra, sagði í Evrópuþinginu í Strassborg að íslam væri "sannarlega ekki vinveitt konum". Hún hvatti þjóðir Evrópu til að líða ekki trúarlegt ofbeldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×