Erlent

Indónesar fá mest

Stærstur hluti söfnunarfjár Alþjóða Rauða krossins vegna hamfaranna við Indlandshaf mun renna til Indónesa. Ríflega hundrað milljarðar króna eru í sjóðum Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem renna eiga til hamfarasvæðanna og var ráðstöfun fjárins ákveðin um helgina. 35 milljörðum króna verður varið til hjálpar- og uppbyggingarstarfs í Indónesíu en flóðbylgjan olli gífurlegri eyðingu í norðurhéruðum Súmötru. Þar fórust yfir 125.000 manns. Tuttugu milljarðar króna munu renna til Srí Lanka, fjórir milljarðar til Maldíveyja og Indverjar fá tvo í sinn hlut. Rauði krossinn mun jafnframt verja tíu milljörðum króna til forvarnarstarfs í löndunum við Indlandshaf svo að búa megi íbúa þeirra betur undir að mæta slíkum áföllum. "Þeir sem gáfu peningana gerðu það eflaust í þeirri trú að þeir rynnu til bágstaddra. Við erum hins vegar viss um að þeir myndu líka vilja að þeir yrðu notaðir til að koma í veg fyrir þjáningar fólks," sagði Johan Schaar, tilsjónarmaður hamfarasjóðanna, í viðtali við blaðamenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×