Innlent

Áform um samkeppni brugðust

Áform ríkisins um að koma á samkeppni á samheitalyfjamarkaði hafa brugðist. Páll Pétursson, formaður lyfjagreiðslunefndar og fyrrverandi ráðherra, sér ekkert athugavert við að ríkið komi aftur að lyfjaverslun til að lækka verðið. Þá undrast hann að einstaklingar, félög og fyrirtæki sjái sér ekki hag í því að flytja sjálf inn samheitalyf. Hér á landi er ekki teljandi verðmunur á samheitalyfjum og frumlyfjum, sem er einstakt, og reyndar eru samheitalyf mjög lítið notuð á Íslandi. Actavis ræður 93 prósentum af samheitalyfjamarkaðnum og ríkið er stærsti viðskiptavinurinn. Til að reyna að lokka fyrirtæki í innflutning samheitalyfja ákvað lyfjaverðsnefnd að heimila innflytjendum samheitalyfja að innheimta allt að 20 prósentum hærra heildsöluverð en í Noregi, Danmörku og Svíðþjóð. Ár er nú liðið frá því þeirri gulrót var veifað. Páll Pétursson, formaður lyfjagreiðslunefndar, segir að það hafi ekki skilað miklu. Aðein sex nýir lyfjaflokkar hafi komið á markað sem hann viti um. Enn er verð samheitalyfja mun hærra hér en annars staðar á Norðurlöndum þrátt fyrir að samkomulag sem gert var milli lyfjaheildsala og ríkisins hafi lækkað innkaupakostnað ríkisins um 140 milljónir. Páll segir brýnt að fá nýja innflytjendur á markað og segist undrast að einstakingar, félög og fyrirtæki sjái ekki hag í því að flytja inn samheitalyf. Svo dæmi sé tekið hafði Íslendingur búsettur í Danmörku samband við fréttastofu Stöðvar 2 og sagði frá lyfjakaupum sínum. Maðurinn þarf á blóðþrýstingslækkandi lyfi að halda og endurnýjaði lyfjaskammtinn í Danmörku. Læknir skrifaði upp á skammt af dönsku samheitalyfi og sá ástæðu til þess að tilkynna Íslendingnum að þar sem hann væri ekki til heimilis í Danmörku þyrfti hann að greiða fullt verð fyrir lyfið. Og viti menn, verðið var 45 danskar krónur eða um 500 íslenskar krónur. Í íslensku apóteki greiddi hann 3300 krónur fyrir sama lyf. Það var það ódýrasta sem hann fann hér á landi, samheitalyf á meira en sexföldu verði miðað við það danska. Fólk getur því sparað tugi þúsunda með því að kaupa lyf í útlöndum. En hvað með ríkið? Páll segir að sér fyndist það engin goðgá að ríkið kæmi aftur að lyfjaverslun eins og það gerði en hann efist um að það sé pólitískur vilji fyrir því. Aðspurður hvort hann telji að það skilaði neytendum betra verði ef Lyfjaverslun ríkisins yrði endurreist segir Páll að hann hafi aldrei verið hræddur við ríkisrekstur því hann eigi alveg rétt á sér eins og einkarekstur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×