Erlent

Mótmæla banni við mótmælum

Þúsundir manna söfnuðust saman á götum úti í Beirút, höfuðborg Líbanons, í nótt til þess að mótmæla fyrirhuguðu banni stjórnvalda við opinberum mótmælum. Bannið, sem á að taka gildi í dag, var ákveðið eftir að ljóst var að andstæðingar og stuðningsmenn stjórnvalda höfðu boðað til mótmæla á sama tíma og sama stað í höfuðborginni. Mjög mikil öryggisgæsla verður í Beirút í dag þar sem andstæðingar stjórnvalda segjast ekki ætla að hlíta banninu og jafnvel er búist við því að stuðningsmenn stjórnvalda hunsi það einnig. Andstæðingar stjórnvalda hafa safnast saman á hverjum degi síðan Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, var ráðinn af dögum. Þeir vilja að Sýrlendingar hverfi með herlið sitt burt frá Líbanon. Stuðningsmenn stjórnvalda ætla hins vegar að mótmæla komu aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna til Líbanons.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×