Erlent

Átta handteknir vegna tilræðisins

Sjálfsmorðssprengjuárás á ísraelskan næturklúbb í gærkvöldi kostaði í það minnsta fjóra lífið. Sprengjan skók einnig friðarferlið og ísraelskar hersveitir héldu inn á Vesturbakkann í kjölfarið. Ekki færri en fjórir fórust og sextíu og fimm særðust í sjálfsmorðssprengjuárásinni á næturklúbb í Tel Aviv í gærkvöldi. Tilræðismaðurinn var í röð utan við næturklúbbinn þegar hann sprengdi sig í loft upp. Þetta er fyrsta árásin af þessu tagi sem gerð er í Ísrael frá því 1. nóvember síðastliðinn en á fundi í upphafi þessa mánaðar gengu þeir Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, og Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, frá vopnahléi sem helstu skæruliðahreyfingar Palestínumanna, Hamas og íslamska Jihad, samþykktu að virða. Maður, sem kveðst tala fyrir hönd al-Aksa herdeildanna, hafði samband við fréttastofuna AFP og sagði eina deildina hafa staðið að tilræðinu. Al-Aksa lýtur ekki stjórn eins leiðtoga heldur eru deildirnar aðeins lauslega tengdar og því er erfiðara að fá al-Aksa til að samþykkja vopnahlé. Reuters segir hins vegar að íslamska Jihad hafi gengist við tilræðinu en leiðtogar þeirra samtaka harðneita aðild. Af þeim sökum hefur vaknað grunur um að utanaðkomandi hafi verið að verki, til að mynda Hizbollah-samtökin í Líbanon, sem njóta stuðnings stjórnvalda í Íran. Mahmoud Abbas fordæmdi sprengjuárásina og sagði þá sem að henni stóðu vera hryðjuverkamenn, en það er orðalag sem palestínskir leiðtogar hafa hingað til ekki viljað nota. Talsmenn ísraelskra stjórnvalda sögðu árásina til marks um að aðgerðafræði Abbas hefði brugðist og að hann yrði nú að beita hörku, handtaka fólk og leggja hald á ólögleg vopn. Snemma í morgun réðust ísraelskar hersveitir inn á Vesturbakkann í leit að þeim sem frömdu óðæðið og handtóku þar fimm karlmenn, meðal annars bræður mannsins sem talið er að hafi sprengt sig í loft upp. Palestínskar öryggissveitir handsömuðu skömmu síðar þrjá menn til viðbótar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×