Erlent

Andar án öndunarvélar

Ítalska fréttastofan ANSA segir að Jóhannes Páll páfi II andi nú án aðstoðar öndunarvélar en hann var tengdur við slíka vél eftir neyðaraðgerðina í gærkvöldi. Skera varð á barka páfa til að koma slöngu að og auðvelda honum þannig andadrátt. Fregnir ANSA af páfa hafa þó til þessa oft reynst óáreiðanlegar. Læknar á Gemelli-sjúkrahúsinu í Rómarborg segja að aðgerðin hafi heppnast vel. Sérfræðingar segja hins vegar að það eitt að páfinn hafi þurft að gangast undir aðgerð af þessu tagi sýni að hann hafi verið orðinn mjög veikur.  Hár aldur páfans og parkinsonsveiki sem hann hrjáir gera það að verkum að líkurnar á fullum bata minnka til muna. Læknar víða um heim segja miklar líkur á að hann fái lungnabólgu á næstu dögum og það megi í raun kallast kraftaverk ef páfinn nái yfir höfuð fullum bata á nýjan leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×