Erlent

Páfi talar ekki næsta mánuðinn

Líðan Jóhannesar Páls páfa II er eftir atvikum góð að sögn lækna á Gemelli-sjúkrahúsinu í Rómarborg. Það er þó ljóst að hann muni ekki geta talað í að minnsta kosti mánuð eftir aðgerðina. Páfi gekkst undir skurðaðgerð á barka í gærkvöldi vegna öndunarerfiðleika. Röri var komið fyrir í barka hans til þess að auðvelda honum andardrátt. Læknar á Gemelli sjúkrahúsinu í Rómarborg segja að aðgerðin hafi heppnast vel. Sérfræðingar segja hins vegar að það eitt að páfinn hafi þurft að gangast undir aðgerð af þessu tagi sýni að hann hafi verið orðinn mjög veikur.  Hár aldur páfans og parkinsonsveiki sem hann hrjáir gera það að verkum að líkurnar á fullum bata minnka til muna. Læknar víða um heim segja miklar líkur á að hann fái lungnabólgu á næstu dögum og það megi í raun kallast kraftaverk ef páfinn nái yfir höfuð fullum bata á nýjan leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×