Erlent

Hundruð fórust í jarðskjálfta

Ekki færri en 370 manns fórust þegar mannskæður jarðskjálfti reið yfir Íran í gærmorgun. Skjálftinn reið yfir í fjallahéruðum um miðbik landsins snemma morguns meðan flestir voru enn sofandi. Íbúar um 40 þorpa þar sem búa samtals 30 þúsund manns urðu fyrir barðinu á jarðskjálftanum. Eignatjóns varð vart í öllum þorpunum og víða lést fólk þegar heimili þeirra hrundu. Verst var ástandið í minni þorpum í fjallshlíðum þar sem stærstur hluti heimila eyðilagðist. "Hvert ert þú farin? Ég gerði mér miklar vonir um þig," söng Hossein Golestani þar sem hann hélt á líflausum líkama sjö ára dóttur sinnar. Við hlið hans lá önnur dóttir hans sem einnig lést í jarðskjálftanum, átta ára gömul. Eftirlifendur leituðu ættingja sinna í húsarústunum og hjálparstarfsmenn reyndu að flytja þá sem lifðu skjálftann af til bæja og borga í grenndinni þar sem þeir hefðu þak yfir höfuðið. Á sama tíma hófu 1.500 leitarmenn frá íranska Rauða hálfmánanum leit að fólki í rústunum með hundum og sérþjálfuðum leitarsveitum. Mannskæðustu jarðskjálftar í Íran frá 1978 21. júní 1990 50.000 fórust í jarðskjálfta í norðvesturhluta landsins. 26. desember 2003 26.000 fórust í jarðskjálfta í Bam í suðausturhluta landsins. 16. september 1978 25.000 fórust í jarðskjálfta í norðausturhluta landsins. 10. maí 1997 1.500 fórust í jarðskjálfta í norðanverðu landinu. 22. júní 2002 500 manns hið minnsta fórust í jarðskjálfa í norðvesturhluta landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×