Erlent

Í hættu í óveðri á Miðjarðarhafi

Sjö hundruð manns voru hætt komin þegar farþegaskip lenti í stormi á Miðjarðarhafinu og missti vélarafl. Heppni virðist hafa ráðið því að bjarga tókst fleyinu og farþegum þess. Skemmtiferðaskipið Voyager var á leið frá Túnis til Barcelona með sjö hundruð manns en ferðin reyndist ekki sérlega skemmtileg. Þrátt fyrir slæma veðurspá hélt skipstjórinn af stað og lenti í aftakaveðri. Átta metra há alda skall á skipinu með þeim afleiðingum að það varð aflvana. Áhöfnin hafði enga stjórn á ferð þess og það rak stjórnlaust í átt að landi. Um það leyti sem hefja átti brottfluttning farþega tókst hins vegar að koma vélum skipsins í gang og það kom í dag til hafnar á spænsku eyjunni Menorku. Þar voru farþegar fluttir frá borði, sumir hverjir bláir og marðir eftir velting í ölduganginum. Nokkrir voru beinbrotnir og flestir öskuillir. Rafael Uriol Mirel, farþegi á Voyager, segir að allir farþegar hafi verið í lífshættu vegna roksins. Sjórinn hafi gengið yfir skipið og fært þilfarið í kaf. Hann segir að stjórnvöld verði að rannsaka málið því hann telji að skipstjórinn hafi gerst sekur um trassaskap því þegar skipið hafi lagt upp frá Túnis hafi verið spáð miklu brimi í hvassri norðanátt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×