Erlent

Sögð leggja grunn að árás á Íran

Stríðstólin sveima yfir Íran, samkvæmt fregnum bandarískra fjölmiðla, sem segja stjórnvöld í Washington leggja grunninn að innrás. Mannlausar eftirlitsflugvélar hafa verið sendar frá Írak yfir landamæri Írans undanfarið ár eða svo til að safna upplýsingum um kjarnorkuáætlun Írana, samkvæmt Washington Post. Einnig er leitað veikleika í loftvörnum landsins. Eftirlitsflugvélarnar eru búnar hátæknibúnaði, ratsjá, myndavélum og loftsíum til að greina minnstu vísbendingar um hvað Íranar hyggjast fyrir. Þó að bandarískir embættismenn neiti því opinberlega að eftirlitsvélar séu á sveimi yfir Íran hafa þær sést þar ítrekað og Washington Post hefur heimildir fyrir ferðunum. Það þykja stórtíðindi að mannlausum eftirlitsvélum sé beitt í Íran því að það telst til undirbúnings innrásar að leggjast í eftirlit af þessu tagi þó að þessum aðferðum sé einnig beitt til að hræða. Að auki hafa stjórnvöld í Washington skipað fyrir um að leyniþjónustur taki saman heildarskýrslu um Íran, sambærilega við þá sem tekin var saman um Írak í aðdraganda stríðsins þar. Miklar efasemdir komu fram um upplýsingarnar í þeirri skýrslu sem reyndust að lokum rangar hvað gjöreyðingavopnaeign Íraka varðaði. Af þeim sökum efast margir um það hvort treysta megi því sem bandarískar leyniþjónustur segja um Íran. Í síðasta mánuði greindi rannsóknarblaðamaðurinn Seymour Hersh frá því að innrás í Íran væri fyrirhuguð og að til hennar gæti komið þegar í sumar. Því hefur verið neitað enda óvíst um stuðnings innanlands sem utan. Helsti talsmaður demókrata í utanríkismálum, Joseph Biden þingmaður, kvatti í gær stjórnvöld í Washington til að taka frekar höndum saman við Evrópuríki sem reynt hafa að semja við Írana. Hann sagði nauðsynlegt að bregðast þegar við hugsanlegum vanda í Íran til að koma í veg fyrir að innrás verði nauðsynleg seinna meir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×