Innlent

Drengurinn í Texas fær enga hjálp

Utanríkisráðuneytið neitaði að færa utanríkisráðherra Bandaríkjanna bréf frá fjölskyldu drengs sem er í stofufangelsi í Bandaríkjunum, á þeim forsendum að málið heyrði ekki undir ráðherrann. Sjálfur stendur drengurinn í þeirri trú að hann sé ekki nógu merkilegur til að íslensk stjórnvöld beiti sér í málinu. Þegar Aron Pálmi var 11 ára framdi hann kynferðisbrot gegn yngri dreng. Víðast í hinum vestræna heimi hefði brotið verið afgreitt sem óvitaskapur, en ekki í Texas í Bandaríkjunum. Hann afplánaði 7 ár af 10 ára dómi sem hann fékk í rammgerðu fangelsi. Fyrir tveimur árum var hann svo færður í þriggja ára stofufangelsi. Hann má ekki fara út fyrir hússins dyr nema hafa staðsetningartæki bundið um ökklann. Eftir að DV fjallaði um mál Arons fyrir ári kom það til umræðu á Alþingi. Þar sagði Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, að kannað yrði hvort Aron fengist framseldur hingað heim af mannúðarástæðum. Það var gert en bandarísk yfirvöld svöruðu því til að sambærilegar varðhaldsreglur yrðu að gilda hér og vestanhafs. Ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu sagði í samtali við fréttstofu í dag að mál Arons sé tekið upp með ákveðnu millibili og menn þar á bæ reyni hvað þeir geti. Móðursystir Arons, Valgerður Hermannsdóttir, reyndi einnig að leita liðsinnis Davíðs Oddssonar, núverandi utanríkisráðherra, þegar hann var á leiðinni út að hitta Colin Powell fyrr í vetur. Hún fékk þau svör að ekki væri viðeigandi að blanda máli Arons við fund utanríkisráðherranna. Valgerður segir að kannski hafi það verið þekkingarskortur að ætla að fara fram á slíkt en þetta hafi verið síðasta hálmstráið. Henni var sagt að hún gæti sent Powell persónulegt bréf en Valgerði fannst það heldur langsótt. Valgerður hefur engin gögn fengið hjá ráðuneytinu yfir samskipti þess við bandarísk yfirvöld. Hún segir ömurlegt að geta ekki fært Aroni fregnir af gangi mála. Þrátt fyrir ítrekaða eftirleitan fái hún engin svör um það hvar málið er statt, eða hvert framhaldið verður. Aron Pálmi býr einn en hefur félagsskap af hundinum sínum. Hann getur þó ekki farið út að viðra dýrið, enda hefur hann einungis leyfi til að fara út í búð og í þvottahúsið. Staðsetningartækið hefur hann borið í 15 mánuði. Valgerður segir engin fordæmi fyrir því að menn hafi þurft að bera slíkt tæki lengur en í hálft ár, ekki einu sinni harðsvíraðir glæpamenn í Texas. Valgerður segir ljóst að bandarísk yfirvöld brjóti á mannréttindum Arons Pálma og sjálfur stendur hann í þeirri trú að hann sé ekki nægilega merkilegur til að íslensk stjórnvöld beiti sér. Á sama tíma hafi þau fylgst með baráttu stjórnvalda fyrir því að fá Bobby Fischer til Íslands. „Það er skelfilegt að vita til þess hvernig andleg líðan Arons er smám saman að deyfast,“ segir Valgerður Hermannsdóttir, móðursystir Arons Pálma.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×